Óseyri 4, 600 Akureyri

©2019 by Crossfit Hamar

Search

Sædís Steinólfsdóttir

Sædís Steinólfsdóttir hefur æft hjá okkur í CrossFit Hamri í tæpt ár. Sædís hefur náð frábærum árangri á þessu ári og áhugi hennar og metnaður er sannarlega eftirtektarverður og hvetjandi. Á þessu tímabili hefur verið mjög gaman að fylgjast með bætingum hennar og sjá hana ná tökum á hverri æfingunni á fætur annari, að auki hefur Sædís misst 14 kg í ferlinu. Við báðum Sædísi að skrifa stutta frásögn um árangur sinn."Í apríl/maí 2017 sagði ég upp áskrift þar sem ég hafði áður verið að æfa og var frekar óviss hvað ég vildi gera í framhaldinu þar sem ég var ekki tilbúin til þess að skuldbinda mig til lengri tíma í eitthvað sem mér fyndist svo kannski ekkert skemmtilegt.

Ég sá svo auglýsingu á Facebook hjá CrossFit Hamri með 21 dags áskorun og ákvað að taka þátt þar sem það var bæði ódýrt og ekki nema 3 vikur. Ég var frekar smeyk að mæta á æfingar til að byrja með þar sem ég þekkti ekki nema 1 eða 2 manneskjur þarna og þar að auki hafði ég aldrei æft með stangir og lóð áður heldur bara ketilbjöllur, svo í mínum augum var þetta stór áskorun.

Ég var samt ákveðin í því að gera mitt besta og reyna að mæta sem oftast á meðan áskorunin var í gangi til að gefa þessu séns – og gekk út með árskort áður en þessi 21 dagur var liðinn!

Tilhugsunin um að það væri erfitt að vera þarna þar sem ég þekkti nánast engan var ekki lengi að hverfa þar sem það tók enga stund að kynnast fullt af fólki. Það er allt svo heimilislegt þarna að manni finnst ekkert mál að spjalla við hvern sem er hvort sem maður þekki manneskjuna eða ekki, þetta er svona eins og ein risastór fjölskylda.

Á þessum tæpum 10 mánuðum sem ég hef æft þarna er ég búin að missa 14 kíló og hef bætt mig í flest öllum æfingum. Ég er að taka meiri þyngdir, tæknin er orðin betri og þar að auki er ég að fara úr því að taka W3 á æfingum yfir í W2 og nú tek ég yfirleitt flestar æfingar RX. Auðvitað er hellingur sem ég get ekki enn gert og þarf því að skala en í hverjum mánuði er ég að bæta mig og læra eitthvað nýtt.


Ég hef æft margar íþróttir og aldrei verið eitthvað sérlega góð í neinu, bara svona í meðallagi. Ég hafði lítið sem ekkert sjálfstraust þegar ég byrjaði, hvorki á æfingum né almennt í lífinu. Núna er ég loksins búin að finna íþrótt sem ég sé fram á að ég geti orðið góð í og sjálfstraustið er á réttri leið líka.


Ef einhver er í vafa hvað hann/hún vill gera í sambandi við hreyfingu mæli ég eindregið með Hamri, ég er í miklu betra formi líkamlega og andlega eftir að ég byrjaði að æfa þar. Ég er líka búin að eignast helling af nýjum vinum og svo er alltaf stutt í hrós og hvatningu á æfingu, hvort sem það sé frá öðrum iðkendum eða þjálfurum. (sem eru geggjað skemmtilegir og sjúllað fyndnir)


Takk kærlega fyrir mig þjálfarar og iðkendur CrossFit Hamars."